Spjaldtölvur, tölvur og upplýsingatækni; hvar standa leikskólar?

Hversu langt eru leikskólar á Íslandi komnir í því að nýta snjalltækin í námi og skólastarfi?
Mynd: educationalappstore

Spjaldtölvur, tölvur og upplýsingatækni; hvar standa leikskólar?

Snjalltækjanotkun hefur aukist á síðustu árum. Undir snjalltæki flokkast tæki eins og spjaldtölvur, snjallsímar og snjallsjónvörp. Heimilin hafa verið fljót að tileinka sér notkun þeirra og á síðustu misserum hefur innleiðing þeirra í menntastofnanir Íslands hafist. Í þessari grein munum við skoða snjalltækjanotkun og notkun upplýsingatækni í leikskólum, með áherslu á snjalltækin og þau tæki sem þau eru hugsanlega að leysa af hólmi.

Hversu langt eru leikskólar á Íslandi komnir í innleiðingarferlinu? Hversu mörg tæki hafa leikskólar sér til handar og hvers konar hugbúnað er verið að nota til kennslu fyrir yngstu kynslóðina? Er áhersla leikskólanna ennþá á hefðbundnar borð- og fartölvur, eða eru leikskólar landsins alfarið fluttir yfir í notkun snjalltækja?

Aðkoma ríkis og sveitarfélaga

Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar um félagslegar afleiðingar snjalltækjanotkunar. Flestir geta þó verið sammála um að undir réttum kringumstæðum sé hægt að nýta slík tæki í menntastarfi með góðum árangri.

Ríki og sveitarfélög hafa að minsta kosti komist að þeirri niðurstöðu. Þau hafa lagt fram stefnur um gildi snjalltækja og notkun þeirra. Þessar stefnur eru hluti af stefnu um notkun upplýsinga- og samskiptatækni sem tengjast menntamálum.

Könnun lögð fram fyrir leikskólakennara

Við hjá Myndmál gerðum könnun árið 2018 um notkun á snjalltækjum og tölvum á leikskólum á Íslandi. Markmiðið var að skilja hversu langt leikskólar landsins væru komnir í innleiðingu á snjalltækjum og notkun þeirra.

Ennfremur höfðum við áhuga á að vita hversu mörg tæki væru til staðar í hlutfalli við fjölda deilda á hverjum leikskóla og hversu mörg börn væru að deila sama tækinu að meðaltali.

Leikskólakennarar um land allt létu í sér heyra í könnun sem lögð var fyrir þá. Við sjáum hversu mörg snjalltæki og hversu margar tölvur leikskólar hafa sér til handar. Ennfremur fáum við að sjá hvernig þeir upplifa framboð af stafrænu kennsluefni fyrir yngstu börnin.

Við vildum líka skoða hvernig hefðbundar tölvur stæðu í samanburði við snjalltækin. Eru snjalltæki búin að taka yfir hefðbundar tölvur?

Að lokum báðum við leikskólakennaranna um að upplýsa okkur um stöðu mála þegar það kemur að framboði á íslenskum hugbúnaði sem hugsaður væri fyrir málörvun, eflingu orðaforðans og fleiri atriða sem eru mikilvæg fyrir börn á leikskólaaldri.

Leikskólakennarar um land allt létu í sér heyra

Leikskólakennarar um land allt svöruðu könnuninni sem að við dreifðum á facebook síðu Myndmál. Við deildum könnuninni líka í hópnum upplýsingatækni í skólastarfi á Facebook.

38 leikskólakennarar svöruðu könnuninni. Við erum sammála um að fjöldi þátttakenda hefði mátt vera meiri en á sama tíma voru þeir dreifðir um land allt. Þar að auki virtust flestir þátttakendurnir koma úr ólíkum skólum. Leikskólar landsins eru rúmlega 233 svo segja má að fyrir hverja 6 leikskóla hafi 1 leikskólakennari svarað könnuninni.

Þegar litið er til þess hversu dreifðir leikskólakennararnir voru sem að tóku þátt þá teljum við að niðurstöðurnar gefi ágæta mynd um stöðu leikskólanna þegar það kemur að notkun á snjalltækjum og öðrum tölvum í leikskólum á Íslandi.

Við deildum könnuninni í Facebook-hópnum Upplýsingatækni í skólastarfi en hann er einn af þeim stöðum þar sem að fagfólk kemur saman til þess að læra og fræða um notagildi upplýsingatækninnar í skólastarfi.

Taka verður niðurstöðunum með ákveðnum fyrirvara hinsvegar, þar sem að fjöldi þátttakenda var heldur lægri en mælt er með í könnunum sem þessum. Við gerðum þau mistök að láta könnunina standa yfir í of stuttan tíma sem orsakaði heldur litla þátttöku. Við lærðum af þeim mistökum.

Hvað kom í ljós í könnunni?

Niðurstöðurnar gefa ágæta mynd á því hvar við stöndum gagnvart framboði af stafrænu, íslensku, námsefni sem hugsað er fyrir börn á leikskólaaldri. Staðan er nokkurn vegin eins og við áttum von á, sem eru ákveðin vonbrigði.

Við fáum góða innsýn inn í það hversu margar spjaldtölvur og hefðbundnar tölvur leikskólar hafa sér innan handa að meðaltali. Þar að auki sjáum við hvernig miðgildin spila inn í en þau sýna okkur hversu misjafnlega þeir standa. Þróunin virðist hinsvegar stefna í sömu áttina hjá þeim flestum.

Við viljum deila með ykkur niðurstöðunum. Spurningarnar eru lagðar fram eins og þær voru settar upp í könnuninni og við rýnum í niðurstöðurnar.

Spurningar og niðurstöður

„Hversu margar tölvur eru á leikskólanum sem eru hugsaðar fyrir kennslu?“

Meðalfjöldi hefðbundinna tölva á leikskólum sem hugsaðar eru fyrir kennslu reyndust vera 2.18 tölva á hvern leikskóla. Miðgildið gaf hinsvegar upp talsvert ólíka mynd, eða sem nemur 0.5 (hálfri) tölvu á hvern leikskóla. Þetta er gífurlegur munur og góð ábending að meðaltöl segja ekki alltaf alla söguna.

Ástæðan fyrir þessu verulega lága miðgildi er sú að helmingur skólanna eru ekki með eina einustu tölvu hugsaða fyrir kennslu. Á sama tíma eru einstaka leikskólar með mjög margar tölvur. Það bendir allt til þess að tölvur séu svo gott sem útdauðar á leikskólum á íslandi eða að minsta kosti á hraðri útleið.

4 leikskólar höfðu 7 eða fleiri hefðbundar tölvur til umráða. Þar af voru tveir skólar með 10 eða fleiri tölvur. Stærsti fjöldinn reyndist vera 14 tölvur en í því tilfelli voru 10 deildir á leikskólanum.

Hefðbundar tölvur hafa verið meginuppistaða í vinnustöðvum og kennslu þegar það kemur að stafrænu kennsluefni. Sú tíð virðist hinsvegar vera að breytast en milgildið bendir til þess að það sé varla heil hefðbundin tölva til staðar lengur á hverjum skóla.

Við spurðum líka hvort að tölvurnar væru nettengdar og nánast undantekningarlaust reyndist svo vera í þeim tilfellum þar sem að tölvur voru notaðar í kennslu.

„Hversu margar spjaldtölvur eru á leikskólanum sem eru hugsaðar fyrir kennslu?“

Meðalfjöldi spjaldtölva á leikskólum sem hugsaðar eru fyrir kennslu reyndist vera 6.6 spjaldtölvur á hvern leikskóla. Miðgildið reyndist vera 6 spjaldtölvur á hvern leikskóla. Þetta segir okkur að leikskólar landsins virðast standa nokkuð jafnt að vígi hlutfallslega þegar það kemur að fjölda spjaldtölva á hverjum leikskóla.

92% þátttakenda sögðu að það væri að lágmarki ein spjaldtölva á leikskólanum sem hugsuð væri fyrir kennslu. 18% sögðu að leikskólinn sem viðkomandi starfaði hjá hefðu 10 eða fleiri spjaldtölvur sem hugsaðar væru fyrir kennslu. Einn leikskóli var þó áberandi í fararbroddi fylkingarinnar og hafði hvorki meira né minna en 30 spjaldtölvur til umráða fyrir rúmlega 110 nemendur.

Við spurðum líka hversu margar deildir væru á leikskólunum og getum þannig séð hversu margar spjaldtölvur hver deild er með að meðaltali. Niðurstaðan var sú að leikskólar eru að meðaltali með 1.5 spjaldtölvu á hverri deild, sem hugsuð er fyrir kennslu.

Leikskólinn sem við greindum frá að væri með 30 spjaldtölvur er með 5 deildir svo hann trónir á toppnum með 6 spjaldtölvur að meðaltali á hverri deild og með rúmlega eitt tæki fyrir hver 3.67 börn. Þetta verður að teljast framúrskarandi tölur þegar litið er til þess hvar meðal-leikskólinn stendur.

Snjalltæki eins og spjaldtölvur eru heldur betur búnar að riðja sér til rúms.

Við spurðum líka hvort að allar spjaldtölvurnar væru nettengdar og nánast undantekningarlaust reyndist svo vera, eða í 92% tilfella. Það er í samræmi við fjölda nettengdra tölva á þeim leikskólum þar sem að tölvur eru ennþá í notkun.

„Kemur það fyrir að öll tæki skólans séu í notkun á sama tíma?“

39.5% svarenda sögðu að það kæmi fyrir að öll tækin á leikskólanum væru í notkun á sama tíma. 15.8% sögðust ekki vita hvort að það kæmi fyrir að öll tæki skólans væru í notkun á sama tíma eða ekki. 44.7% svöruðu því neitandi. 55.3% segjast því nota öll tækin samtímis eða ekki vera viss.

„Hvernig hugbúnaður er notaður í kennslu á leikskólanum?“

94% þeirra sem sögðust nota spjaldtölvu á leikskólanum sögðust nota smáforrit (app) í spjaldtölvunum, nánar til tekið 86% af þátttakendum. 51.4% sögðust nota vefsíðu í spjaldtölvunni, eða 47.4% af þátttakendum. Enginn af þeim sem að notaði spjaldtölvu við kennslu notaði einungis vefinn til þess að kenna.

57.9% þeirra sem sögðust nota tölvu á leikskólanum fyrir kennslu sögðust nota forrit í tölvunni fyrir kennsluna, eða 28.9% af þátttakendum. Sami fjöldi sagðist nota vefsíðu í tölvunni fyrir kennslu. 36.8% þeirra sem sögðust nota tölvu fyrir kennslu sögðust nota bæði forrit í tölvunni og vefsíðu í tölvunni fyrir kennslu, eða 18.4% allra þátttakenda.

Einn þátttakandi sagði að það væri ekki notast við tölvur af neinu tagi við kennslu á leikskólanum þeirra og 10.5% þátttakenda sögðust ekki vera viss um það hvernig hugbúnaður væri notaður við kennslu.


Mynd: apppresser

Smáforrit (e. apps) eru farin að hafa mikilvægari sess í skólastarfi en hefðbundar vefsíður og forrit í tölvum. Vefsíður sem aðlaga sig að snjalltækjum hafi þó mikið notagildi. Stór plús sé ef að vefsíða styðji við þá virkni að vera notuð sem vef-smáforrit í snjalltækinu með því að vera bætt við á heimaskjá tækisins.

„Hversu margar deildir eru núna á leikskólanum?“

Að meðaltali eru 4.37 deildir á hverjum leikskóla. Með því að vita hversu margar deildur eru á hverjum leikskóla getum við skoðað hversu mörg tæki hver deild hefur að meðaltali til umráða. Eins og áður kom fram þá reyndist það vera eitt og hálft tæki á hverri deild að meðaltali.

„Er þörf fyrir meiri hugbúnaði á Íslensku fyrir leikskólabörn en það sem þú veist að er til í dag?“

78.95% þátttakenda sögðu að þörf væri fyrir meiri hugbúnað á íslensku fyrir leikskólabörn.  15.79% sögðust ekki vera viss. Einungis 5.26% svarenda svöruðu spurningunni neitandi.

Leikskólakennarar eru einhljóða: þörf er fyrir meiri hugbúnað á íslensku fyrir leikskólabörn þegar það kemur að stafrænu kennsluefni.

Þessi gífurlega þörf er einmitt ástæðan afhverju við bjuggum til Myndmál og ákváðum við að stofna formlegan rekstur til þess að geta betur hjálpað sérfræðingum og foreldrum að vinna með málörvun, málþroska og orðaforða barna.

Leikskólakennarar finna fyrir miklum skorti á íslenskum hugbúnaði sem hefur það hlutverk að efla málörvun, málþroska og orðaforða hjá yngstu kynslóðinni. Það er til ágætis framboð af erlendum hugbúnaði, þ.e. forritum, vefsíðum og smáforritum, en horfa þurfi til framþróuan á slíkum hugbúnaði á íslensku.

Við ætlum ekki að fara dýpra í þjónustuna okkar í þessari færslu en ef þú hefur áhuga þá geturðu prófað Myndmál hérna. Þú getur líka skoðað ummæli annarra sem að við höfum fengið frá óháðum aðilum.

„Um það bil hversu margir nemendur eru á leikskólanum?“

Meðalfjöldi nemenda á hvern leikskóla reyndist vera 89.6 nemendur. Miðgildið reyndist vera 93 nemendur. Það má því draga þá ályktun að það séu rúmlega 21.3 börn á hverri deild að meðaltali, ef miðað er við 4.37 deildir á hvern leikskóla.

Miðað við að meðalfjöldi tækja á hverri deild sé 1.5 tæki þá má gera ráð fyrir því að það sé 1 tæki fyrir hverja 14.2 nemendur á leikskólum á íslandi í dag, að meðaltali. Það er talsvert lakari árangur en hjá leikskólanum sem er kominn hvað lengst í innleiðingu spjaldtalva, sem reyndist vera 3.67 börn á hverja spjaldtölvu eins og áður kom fram í niðurstöðunum.

Fjöldi spjaldtölva og tölva á leikskólum íslands

Eftir að hafa skoðað fjöldann af tölvum og spjaldtölvum þá getum við séð að hver leikskóli er með að meðaltali 8.8 tæki sem hugsuð eru fyrir kennslu. Miðgildið er aðeins lægra, eða 6.5 tæki á leikskóla.

Hefðbundnar tölvur virðast alfarið vera að detta út af sjónarsviðinu hjá flestum leikskólum nema í einstaka tilfellum. Það verður áhugavert að sjá hvort að sú þróun haldi áfram.

Eru snjallsjónvörp notuð við kennslu í leikskólum Íslands?

Eftir að rúmur helmingur þátttakenda höfðu svarað könnuninni var okkur réttilega bent á að sumir leikskólar væru byrjaðir að nota svokölluð snjallsjónvörp við kennslu. Við bættum við spurningu fyrir síðari helminginn um það hvort að þeirra leikskóli væri búinn að innleiða snjallsjónvarp og hversu mörg þau væru þá.

Einungis 2 leikskólar höfðu innleitt snjallsjónvarp á leikskólann fyrir kennslu, annar eitt tæki og hinn tvö tæki. Þrátt fyrir lágt úrtak til þess að vinna með þá sjáum við að notkun á snjallsjónvörpum í leikskólum er komin mjög stutt á veg en þó eru einhverjir byrjaðir. Áhugavert verður að fylgjast með þeirri þróun.

Hversu margir leikskólar hafa engin tæki sem hugsuð eru fyrir kennslu?

2 svarendur sögðu að þeirra leikskóli væri hvorki með tölvu né spjaldtölvu eða snjallsjónvarp sem hugsað væri fyrir kennslu, eða 5.3%.

Val leikskólakennara þegar það kemur að stafrænu námsefni fyrir börn

Svör leikskólakennaranna sögðu okkur að þeir vilja leggja áherslu á hugbúnað sem að eflir málörvun, sköpun, læsi og stærðfræði. Helst vilja þeir notast við íslensk forrit en þau eru af mjög skornum skammti. Þar sem að þau eru af skornum skammti þá hafa leikskólakennara hingað til að mestu leiti neyðst til þess að notast við hugbúnað á ensku.

Þau ensku forrit sem að eru notuð verða því að hafa mikið notagildi og efla sköpunargáfu og önnur skilningarvit en á sama tíma innihalda lágmarks magn af ensku. Vinsælt virðist vera að láta elstu börnin vinna með sköpun í þrívídd.

Á hvaða aldri byrja börnin á leikskólunum að vinna með snjalltæki og tölvur?

Börnin byrja á misjöfnum aldri að vinna með tæknilega til þess að læra.

Allur gangur virðist vera á því hvenær börnin byrja að vinna með tölvur og snjalltækin. Sum staðar er byrjað strax á fyrsta og öðru aldursári. Annar staðar er beðið til 3-5 ára aldurs.

Á sumum stöðum er tæknin eingöngu notuð fyrir sérkennslu en meginþorri leikskólanna virðist nota tækin fyrir flesta nemendurna. Oft eru tækin einnig notuð fyrir samverustundir og myndbandagerð.

Innleiðing snjalltækja á leikskólum

Flestir leikskólar eru byrjaðir að taka í notkun spjaldtölvur sem hugsaðar eru fyrir kennslu. Þær eru orðnar fleiri en tölvur á leikskólunum og á sumum stöðum er alfarið búið að útleiða hefðbundar tölvur með það markmið í huga að skipta yfir í spjaldtölvur, snjallsjónvörp eða önnur snjalltæki.

Leikskólakennarar eru sammála um að það sé mikill skortur á íslensku efni fyrir þann aldursflokk sem að þau leiðbeina. Of mikið sé af enskumælandi efni og velja þurfi valið vel þegar það kemur að því að velja erlendan hugbúnað fyrir börnin.

Þegar að enskumælandi hugbúnaður sé valinn þá sé það fyrst og fremst til þess að efla sköpunargáfu barnanna. Leikskólakennarar vilja leggja áherslu á að nota forrit og smáforrit sem að efla málörvun, læsi og skilning á íslensku máli.

Fjöldi snjalltækja og tölva á leikskólum

Að meðaltali er eitt tæki fyrir hverja 14.2 nemendur eða sem nemur 1.5 tæki á hverja deild á hverjum leikskóla. Það er ákveðið gleðiefni að flestar deildir leikskólanna hafi tæki til notkunar sem hugsað sé fyrir kennslu. Við trúum því að undir leiðsögn sérfræðinga eða í öruggu kennsluumhverfi þá geti tæknin nýst mjög vel til kennslu.

Það segir sig þó sjálft, að okkar mati, að það er ákveðin hömlun fólgin í því hvað fáir geta notið góðs af kennslunni í einu miðað við meðalstöðu leikskólanna í dag. Það sé þó skiljanlegt á þeim deildum þar sem að börnin eru hvað yngst og þurfa því að nota tækin undir leiðsögn kennara. Hvað finnst þér? Láttu okkur vita í athugasemdunum.

Það er áhugavert að sjá hversu margar tölvur og hversu mörg snjalltæki leikskólar á íslandi hafa sér inna handar fyrir kennslu.

Að meðaltali séu 2.2 tölvur á hverjum leikskóla á íslandi í dag, en miðgildið er ekki nema 0.5 tölva. Það gefur til kynna að tölvan sé nánast alfarið að þurkast út á leikskólunum. Þær eru engu að síður ennþá í notkun í stórum mæli á örfáum leikskólum. Það verður spennandi að sjá hvernig fjöldi tölva, spjaldtölva, snjallsjónvarpa og annara tæki muni þróast.

Hver leikskóli er að meðaltali með 6.6 spjaldtölvur til umráða og miðgildið er 6 spjaldtölvur. Það gefur til kynna að þróunin sé tiltölulega jöfn á leikskólum landsins. Ríki og sveitarfélög séu því nokkuð samstíga þegar það kemur að innleiðingu á snjalltækjum á leikskólunum sem hugsað eru fyrir kennslu. Spjaldtölvur í skólastarfi sé komnar til að vera, að minnsta kosti í einhvern tíma. Þó séu ákveðnir leikskólar sem að standi áberandi framar hinum og í einstaka tilfellum séu leikskólar á byrjunareit.

Hvernig finnst þér staðan vera?

Hvernig finnst þér þitt sveitarfélag/bæjarfélag standa sig í afleiðingunni á sínum leikskólum? Er þinn leikskóli á þeim stað sem að þér finnst að hann eigi að vera á þegar það kemur að því að nýta tæknina til þess að efla íslenskukennslu hjá yngstu kynslóðinni?

Finnst þér fjöldi snjalltækja sem kemur fram hérna í greininni vera ásættanlegur, of mikill eða þarf að gera betur? Láttu okkur vita í athugasemdunum.

Fannst þér þessi grein áhugaverð?

Viltu vita þegar að við birtum greinar eins og þessa? Við skrifum líka um málþroska, málörvun og upplýsingatækni í skólastarfi.

Skráðu þig þá á póstlistann.

Við sendum þér líka ókeypis ráðgjöf beint í pósthólfið um leið og þú skráir þig. Sérsniðin fyrir fagfólk og foreldra.

Deildu færslunni ef þér fannst hún áhugaverð:

Jónas Tryggvi Stefánsson

Hæ! Jónas heiti ég. Ég er meðeigandi að Myndmál með henni Ragnhildi. Ég er tölvunarfræðingur og frumkvöðull. Að leysa vandamál er eitt af mínum helstu áhugamálum en þegar ég er ekki að því þá er ég að hlaupa, stunda bootcamp, spila spil, hlusta á hljóðbækur og hljóðvörp eða að gera eitthvað annað skemmtilegt með vinum og fjölskyldu :)