Tvítyngd börn í leik- og grunnskólum – hvar standa þau?

Hver er staða tvítyngdra barna í leik- og grunnskólum á Íslandi í dag?

Tvítyngd börn í leik- og grunnskólum – hvar standa þau?

Spurningin er þessi: eru tvítyngd börn raunverulega að fá þau tækifæri sem þau þurfa til þess að standa sterkum fótum í tungumálinu okkar þegar að þau koma úr leikskólunum. Hver er staðan hjá þeim þegar að þau byrja í grunnskólunum?

Fá öll tvítyngd börn tækifæri til þess að læra íslensku?

Rannsóknir sýna að tvítyngd börn í leikskólum eru ekki að fá næga kennslu í íslensku þar sem íslenska er annað móðurmál barnsins.

Einungis þriðjungur tvítyngra barna nær að læra íslensku í leikskóla. Annar þriðjungur nær alls ekki að læra íslensku sem annað móðurmál. þetta er ekki nógu gott. En hver er ástæðan?

Elín Þöll Þórðardóttir fer vel yfir þetta í fyrirlestri sínum sem má nálgast hérna. Við mælum sterklega með þessum fyrirlestri.

Elín Þöll Þórðardóttir Ph. D hélt erindi þar sem hún fjallaði um rannsóknir og prófanir á grunnskólanemum.

Hún veltir fyrir sér hvort ástæðan geti verið að ekki sé verið að tala íslensku við þessi börnin.
Að verið sé að tala við þau á sínu upprunalega móðurmáli í leikskólanum.

Ástæðan gæti einnig verið sú að þau séu einangruð eða blönduð inn í hópa af öðrum börnum sem ekki tala íslensku. Það getur líka verið að þau séu mikið að leika sér úti þar sem áhersla á tal sé ekki mikið.

Ég sem leikskólakennari hef trú á því að fleira geti verið að hafa áhrif eins og fátt fagfólk. Álag getur verið mikið, mannekla þar sem allt of oft þarf að vinna eftir plani B og ör starfsmannavelta er eitthvað sem ég held að spili inn í að ekki hafi betur tekist til.

Málörvun fyrir tvítyngd börn allan daginn, alla daga

Tvítyngd börn þurfa stanslausa málörvun alla daga. Þau hafa oft mun minni orðaforða en jafnaldrar sínir sem eru eintyngdir. Oft er orðaforðinn hjá þeim einfaldlega lítill sem enginn.

Það er nauðsynlegt að kenna börnunum fljótt helstu orðin yfir þarfir þeirra. Það að kenna börnum hvernig þau geta tjáð sig um þarfir sínar dregur úr kvíða og eykur öryggistilfinningu þeirra.

Við þurfum að hugsa hvernig við getum komið þessu inn í daglega rútínu. Við getum gert það með því að nýta fataklefann, matartímann, útiveru, samverustundir, hópastaf og bara allar stundir dagsins.

Hérna er dæmi: talaðu við börnin um það sem þau eru að gera hverju sinni. Til dæmis talaðu við þau um það þegar að þau eru að:

  • þvo hendur,
  • mála mynd,
  • klæða sig í,
  • o.s.frv
Tölum við börnin um það sem þau eru að gera hverju sinni.

Það er nauðsynlegt að fara vel í þessi mál og gera þetta með meðvituðum hætti. Það þarf að skipuleggja þetta eins og annað sem þarf að gera.

Skipulag skiptir máli í kringum tvítyngd börn

Það getur verið mjög gott að skipuleggja að leggja inn ákveðin orð á viku. Það getur líka verið gott að taka fyrir ákveðið þema yfir mánuðinn eins og t.d. dýr. Þá er hægt að leggja inn orð alla mánuðinn sem tengist þessu tiltekna þema.

Þegar bækur fyrir samverustundir eru lesnar er gott að vera búin/n að velja orð sem á að kenna. Spil eins og samstæðuspil og bingó eru tilvalin í að auka orðaforða.

Í starfi mínu sem sérkennslusjóri bjó ég til ýmsa hreyfileiki og tengdi við orðaforða. Ég notaði ljósmyndir og fötur. Börnin áttu að hlaupa og ná í eina mynd en þeim var dreift um gólfið. Þegar þau komu að fötunum áttu þau að finna rétta fötu til að setja myndina í. Dæmi; mynd af kisu og þau fundu mynd af yfirflokknum sem var dýr.

Þegar allar myndirnar voru komnar í föturnar gátum við sest niður og skoða allar myndirnar og börnin sögðu hvað væri á myndunum. Svona er hægt að tengja málörvun í alla þætti starfsins.

Ég veit til þess að til dæmis Leikskólinn Ösp var með lista með nöfnum barnanna. Þau notuðu listann til þess að passa upp á að ekki gleymdist að tala við eitthvert barnið. Þau reyndu að ná 10 markvissum mínútum á dag, í það minnsta, með hverju barni.

Sú sem ekkert talaði

Sum tvítyngd börn eru óörugg og sækjast eftir því að leika sér ein. Það er eitthvað sem verður að laga. Það þarf að hjálpa þeim þannig að þau nái að tengjast barnahópnum. Þau læra ekki íslensku ef þau eru ekki að eiga í miklum samskiptum við börn eða starfsmenn.

Nauðsynlegt er að minnka þann tíma sem börnin leika sér ein.

Það var ein fjögra ára, tvítyngd stúlka, þar sem að ég starfaði og vann með. Hún talaði ekkert í leikskólanum. Ég fór að hitta hana einslega og leggja inn orð með spilum. Ég notaði líka markvisst Myndræna orðasafnið mitt, sem að ég var þá búin að búa til, sem síðar varð Myndmál.

Fyrst byrjaði ég að vinna með henni þannig að hún benti á myndirnar sem ég var með, óyrt. Mjög fljótlega fór hún að tjá sig um myndirnar.

Önnur börn fóru síðan að koma með í þessa tíma og hún talaði þó þau væru með, en ekkert þegar hún kom inn á deildina sína aftur.

Næsta skref hjá henni var að tala við börnin í hópnum þegar við hittumst. Eftir þessa vinnu okkar í hóp fór svo að hún var farið að tjá sig óhikað inn á sinni deild innan skamms tíma. Þetta var allt spurning um æfingu og að taka lítil skref í einu með yfirgripsmiklu námsefni og leiðsögn.

Að notast við leiki og fjölbreytt kennsluefni með börnunum er mikilvægur þáttur í því að efla málþroska tvítyngdra barna.
Þau geta ýmist notað efnið sjálf undir handleiðslu, sjálf eða í samstarfi við önnur börn.

Það sem ég gerði líka að var að leyfa henni að kynna börnunum á deildinni fyrir Myndmál. Það hjálpaði henni gífurlega að fá að vera í sviðsljósinu en með eitthvað sem að hún kunni framyfir hina. Það gaf henni sjálfstraust.

Vinna við Myndmál þróaðist á flestum deildum þannig að tvö börn fóru að vinna saman í því, enda mjög gott þar sem sum börnin réðu ekki við tölvumúsina en á þeim tíma var Myndmál bara notað í tölvur.

Erfiðleikarnir eru útum allt

Ég hef séð tilfelli þar sem ótvítyngdu börnin voru búin að gefast upp á að reyna að fá tvítyngt barn með í leik. Það er ótrúlega sorglegt að verða vitni að því.

Ég hef líka tekið eftir því að sum börn upplifa kvíða yfir því að vita ekki hver dagskráin hjá þeim sé. Eitt sem getur hjálpað að draga úr kvíða er t.d. að fara yfir daginn með hjálp mynda. Þannig fá þau að vita hvernig dagurinn muni líta út.

Það er líka mjög sorglegt að vita til þess að allt of mörg tvítyngd börn sem hafa verið í leikskóla hér á landi sem hafa komið inn í grunnskólana með mjög takmarkaða íslensku kunnáttu. Það er líka áhyggjuefni hversu mörg tvítyngd ungmenni ná ekki að ljúka framhaldsnámi. Brottfall tvítyngdra er mun meira en þeirra eintyngdu.

Það er útaf þessu sem það er svo mikilvægt að við stöndum saman í að mynda grunninn hjá börnunum á meðan að það er á okkar valdi.

Hver er okkar ábyrgð þar sem tvítyngd börn koma við sögu í leik- og grunnskólum á Íslandi?

Við verðum að vera meðvituð um að möguleikar barnana eru skertir ef þau ná ekki góðri íslensku. Tvítyngd börn eru flest ekki að fá þá kennslu sem að þau þurfa til þess að geta spjarað sig almennilega þegar að þau koma í grunnskólana úr leikskólunum.

Góður orðaforði er mjög mikilvægur fyrir einstaklinginn til að tjá sig og eiga samskipti við aðra. Það er leikskólinn sem byggir grunninn og því mikið ábyrgð sem fylgir því.

Við þurfum að vinna með formlegum og óformlegum hætti allan daginn og alla dag að því að auka við orðaforða tvítyngdra barna. Við þurfum að gefa okkur tíma í að tala íslensku við þau og að fá þau til þess að hafa gaman af því í leiðinni.

Þótt færni í móðurmáli hjálpi er það ekki forsenda þess að læra annað tungumál. Það er magnið sem skiptir öllu, því þau læra það mál best sem mest er talað í kringum þau og við þau.

Stendur til að auka stuðning við tvítynd börn í grunnskólum

Hér hefur mest verið komið inn á leikskóla en það er ekki þar með sagt að ekki megi bæta ýmislegt í grunnskólum og að börn fái þar alla þá íslenskukennslu sem þau þurfa. Þar má örugglega margt bæta miðað við að hvernig PISA kemur út þá erum við að standa okkur illa miðað við bilið á milli tvítyngdra og eintyngdra.

Niðurstöður PISA-prófanna benda eindregið til að lesskilningur barna á Íslandi með íslensku sem annað tungumál sé langt frá því að vera nógu góður og fari versnandi.

Enginn rammi hefur verið settur um það hvað mikla íslenskukennslu þessi börn eiga að fá inn í grunnskólunum. Það hefur það verið algjörlega í höndum skólastjórnenda hvort og hversu mikla auka kennslu þau hafa fengið íslensku. Nú stendur til að auka stuðning við tvítynd börn og að breyta aðalnámskrá í samræmi við það og það verður áhugarvert að fylgjast með hverju það breytir.

Ég mæli með fyrirlestrinum hennar Elínar til þess að fá betri yfirsýn yfir stöðuna í dag.

Fannst þér þessi grein áhugaverð?

Skráðu þig á póstlistann okkar með því að smella á hlekkinn hérna fyrir neðan. Þá færðu að vita þegar að við birtum aðrar greinar eins og þessa:

Skrá mig á póstlistann

Láttu okkur svo vita í athugasemdunum hvað þér finnst.

Ef að þér fannst greinin áhugaverð þá myndum við kunna að meta það ef að þú myndir deila henni:

Ragnhildur Gunnarsdóttir

Ragnhildur Gunnarsdóttir, Ragga, er leikskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands og fyrrum sérkennslustjóri. Hún hefur starfað á leikskólum í rúm 30 ár og þar af í tæpan áratug sem sérkennslustjóri. Hún er meðeigandi Myndmál með Jónasi. Hún vill hjálpa öðrum að efla málþroskann og bæta stöðu barna, foreldra og fagfólks á þeim sviðum sem snerta hann.